2.4 Samráð og opinbert skipulag

Kröfur

Í tengslum við hvert verkefni skal vera farvegur fyrir bæði tillögur og athugasemdir frá hagsmunaaðilum og almenningi. Slíkt víðtækt samstarf gildir ekki einungis um undirbúningstíma verkefnisins heldur skal viðhafa það allan samningstíma þess.

Samráð við hagsmunaaðila vegna breytinga á landnýtingu er meðal gagna sem farið er yfir þegar unnið er að staðfestingu verkefnisins. Tiltæk gögn um áframhaldandi samráð við hagsmunaaðila eru skoðuð við hverja sannprófun.

Gögn vegna staðfestingar

  • Framkvæmdaleyfi sveitarfélags
  • Önnur skjöl sem tilgreina hvaða leiðir voru farnar til að tryggja víðtækt samráð við hagsmunaaðila og samantekt á þeim leiðum sem farnar voru til að bregðast við athugasemdum

Frekari gögn vegna sannprófunar á síðari stigum

  • Skjöl sem staðfesta áframhaldandi samráð

Leiðbeiningar

ÍTAREFNI

Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga

Skógræktin og Skipulagsstofnun gáfu í ársbyrjun 2023 út endurskoðaða útgáfu bæklingsins Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Bæklingurinn er nú í samræmi við þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum og stefnu stjórnvalda í skógræktarmálum.

Forsíða bæklingsins
Forsíða bæklingsins

Í bæklingnum eru settar fram almennar leiðbeiningar sem eiga að nýtast við mótun stefnu um skógrækt í skipulagsáætlunum. Einnig er leiðbeint um málsmeðferð og gögn sem þarf að leggja fram við gerð skógræktaráætlana, ósk um framkvæmdaleyfi og vegna skógræktar sem fellur undir 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Í skipulagsáætlun er sett fram stefna sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Þar er jafnframt lýst forsendum að baki stefnunni og eftir atvikum hvernig staðið verður að framkvæmd hennar. Öll mannvirki og aðrar framkvæmdir sem hafa áhrif á umhverfið og breyta ásýnd þess eiga að vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Í skipulagslögum nr. 123/2010 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eru skilgreindar þrjár gerðir skipulagsáætlana, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Við gerð skipulagsáætlana þarf að taka mið af landsskipulagsstefnu sem er samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál.

Þetta er fjórða útgáfa ritsins sem var fyrst gefið út árið 2008 undir ritstjórn Hallgríms Indriðasonar, þáverandi skipulagsfulltrúa Skógræktarinnar. Það er nú uppfært í þriðja sinn miðað við breytingar sem orðið hafa á lögum og stefnu stjórnvalda. Ritstjórn önnuðust Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, og Guðrún Lára Sveinsdóttir, sviðstjóri aðalskipulags hjá Skipulagsstofnun. Um textavinnslu og umbrot sá Pétur Halldórsson.

Bæklinginn má skoða í vefútgáfu þar sem heilar opnur birtast eða í prentútgáfu með stökum síðum sem einnig hentar til að prenta út í góðri upplausn. Bæklingurinn er nú eingöngu gefinn út á rafrænu formi og varðveittur í Rafhlöðu Landsbókasafns.