2.6 Skráning og komið í veg fyrir tvítalningu

Kröfur

  • Hvert verkefni og kolefniseiningar þess skal aðeins skrá á einum stað í Loftslagsskrá Íslands
  • Verkefnahópar skulu skráðir sem slíkir og einstök verkefni innan þeirra sem undirverkefni
  • Skrá skal í Loftslagsskrá öll verkefni, gögn sem þau varða, einnig kolefniseiningar, úthlutun þeirra, stöðu á hverjum tíma og afskráningu. Öll sú skráning skal vera opin og öllum sýnileg
  • Við upphaflega staðfestingu verkefnis skal skrá allar útgefnar Skógarkolefniseiningar sem Skógarkolefniseiningar í bið
  • Ef kolefniseiningar í bið eru seldar fyrir fyrstu sannprófun kolefnisbindingar skal þeim úthlutað til kaupandans
  • Við hverja sannprófun breytast kolefniseiningar í bið sem tilheyra viðkomandi árabili (árunum frá síðustu sannprófun) í fullgildar Skógarkolefniseiningar í Loftslagsskrá
  • Áður en Skógarkolefniseiningar eru taldar fram á móti losun í grænu bókhaldi skal afskrá þær úr Loftslagsskrá
  • Verkefni mega ekki þiggja gjald fyrir gróðursettar plöntur eða önnur framlög, enda er það andstætt reglum um hvata til kolefnisverkefna
  • Verkefnaeigendur skulu fara eftir þeim reglum sem gilda um Loftslagsskrána og aðeins selja kolefniseiningar sem eru staðfestar og sannprófaðar gagnvart kröfusettinu Skógarkolefni.

Staða verkefna í Loftslagsskrá er athuguð við staðfestingu. Við sannprófun er Loftslagsskrá skoðuð með tilliti til skráningar verkefna og kolefniseininga.

Gögn vegna staðfestingar

  • Aðstandendur verkefnis skulu hafa skráðan reikning í Loftslagsskrá
  • Verkefni skal skráð í Loftslagsskrá
  • Yfirlýsing um að verkefni og kolefnisbinding vegna þess skuli ávallt vera rétt skráð í Loftslagsskrá

Frekari gögn vegna sannprófunar á síðari stigum

  • Staðfesting í framvinduskýrslu um að verkefnið sé ekki skráð sem kolefnisverkefni annars staðar eða í öðrum kolefnisskrám
  • Skógarkolefniseiningar í bið eru skráðar, þeim úthlutað og þær birtar sem inneign eiganda í opnum aðgangi í Loftslagsskrá, eða sem úthlutun til hans
  • Þegar Skógarkolefniseiningar eru nýttar á móti losun eru þær afskráðar í Loftslagsskrá

Leiðbeiningar

  • Í Loftslagsskrá er yfirlit yfir verkefni, Skógarkolefniseiningar í bið, tilfærslur á eignahaldi Skógarkolefniseininga, úthlutanir og afskráning
  • Áður en kemur til sannprófunar eru Skógarkolefniseiningar verkefnis skráðar „í bið“. Sú skráning er í raun skuldbinding um að þær verði seinna að fullgildum vottuðum Skógarkolefniseiningum. Einingar í bið má flytja eða úthluta til kaupanda fyrir vottun. Vottaðar Skógarkolefniseiningar má nýta í kolefnisbókhaldi fyrirtækja og skulu þær þá afskráðar í Loftslagsskrá. Afskráningin felst í því að einingarnar eru færðar yfir á afskráningarreikning sem öllum er aðgengilegur. Þetta er gert til að sýna að viðkomandi einingar hafi verið teknar úr umferð og þær megi ekki nota meir. Sjá kafla 2.7 um kolefnisbókhald. Einnig eru hér á vefnum leiðbeiningar um notkun og greiðslur vegna tilfærslna á Skógarkolefniseiningum á síðunni Skjalasniðmát og eyðublöð.